Tuesday, November 13, 2007

Bestu bækurnar

Ég elskaði Enid Blyton þegar ég var lítil og ég gjörsamlega las allt sem hún skrifaði. Fyrstu bækurnar voru Dularfullu bækurnar, svo þroskaðist maður smá og las Fimm bækurnar og svo þegar ég var hálfnuð í að verða táningur þá voru það Ævintýrabækurnar. Ég var ekki eins hrifin af Leynifélaginu en las þær nú samt svona inn á milli.
Margar af þessum bókum las ég aftur og aftur. Eitthvað af þeim var til heima hjá mér en svo var líka bókasafn út á Hofsvallagötu sem ég fór á og tók mér bækur. Það var voðalega lítið og krúttlegt, í svona einni stofu í íbúðarhúsi. Afskaplega heimilislegt.
Ég byrjaði snemma að lesa og las hratt. Á einum sunnudegi þá gat ég lesið alveg heila Ævintýrabók. Og ef mér leiddist þá bara las ég. Enda fáar bækur sem ég las ekki sem barn og unglingur.

Sólon Birkir hefur verið að lesa Ævintýrabækurnar og eitthvað af Fimm bókunum í skólanum og svo lásum við saman nokkrar Leynifélagsbækur. Hann datt aldrei inn í Dularfullu bækurnar. Þegar ég var að reyna að lesa þær fyrir hann þá var Harry Potter kominn til sögunnar og hann var víst meira spennandi en einhverjir krakkar að stríða feitri löggu. :)

Ég er annars í fýlu, komin með hálsbólgu og er sjúklega slöpp. Ég verð svo leiðinleg og skapvond þegar ég er kvefuð að það hálfa væri nóg. Ég eiginlega vorkenni fólkinu í kringum mig....
Ég hef sko engann tíma fyrir eitthvað svona bull núna, er á milljón að reyna að klára verkefni og má ekkert við einhverjum veikindum. Þannig að ef einhver kann eitthvað töfraráð við hálsbólgu og skít þá má hann endilega láta mig vita.

Tuesday, November 6, 2007

Láki

Þegar ég var lítil þá var uppáhalds bókin mín Láki. Munið þið ekki eftir bókinni um Láka litla jarðálf sem fer upp á yfirborðið og stríðir fjölskyldu sem hann sér. Sagan endar auðvitað voða vel og Láki fær að búa hjá fjölskyldunni og breytist í lítinn ljóshærðan strák.
Mamma hefur sagt mér að hún þurfti að lesa þessa bók aftur og aftur. Svo ef hún ætlaði að reyna að sleppa vel og hlaupa yfir blaðsíðu þá var það sko ekki séns. Ég kunni bókina utanaf afturábak og áfram.

Um daginn sá ég svo grein þar sem sýnt var fram á það að Láki væir "rasistabók" alveg eins og tíu litlir negrastrákar þar sem Láki breytist úr krulluðum dökkhærðum álfi í ljóshærðan dreng með rennislétt hár. Ég veit nú ekki um þetta, erum við ekki komin dálítið of langt? En ég ætla þó að lýsa því yfir að þó svo að ég muni eftir þessari bók um negrastrákana þá átti ég hana ekki og man ekki eftir að hafa haft gaman af henni. Og ég mun aldrei kaupa hana.

Sólon Birkir var mjög hrifin af öllum þessu litlu skemmtibókum, Stubbur var þó vinsælli en Láki. Ég var mjög fegin með það því í dag finnst mér Stubbur skemmtilegri :)
En uppáhalds bókin hans úr þessum bókaflokk var samt Kolur fer á leikskóla. Hún var ekki til þegar ég var lítil.

Það verður spennandi að sjá hvaða bók verður í uppáhaldi hjá Sölva Frey (20 mánaða). Hann er mikill bókaormur og dundar sér oft við að skoða bækur. Honum finnst ofsalega notalegt að lesa fyrir svefninn en á ekki ennþá neina uppháldsbók þó hann sæki mikið í dýrabækur.

Friday, November 2, 2007

Grikkland og Trójustríðið

Önnur bók sem var og er svona "all time favorite" heitir Fall og eyðing Tróju, úr bókaröðinni Í leit að horfnum heimi. Ég vann þessa bók í afmæli hjá vinkonum minni þegar ég var held ég 9 ára frekar en 10 og ég féll fyrir henni um leið. Ég man ennþá eftir kvöldunum sem við mamma lágum saman upp í rúmi og hún las hana fyrir mig. Í bókinni er rakin leitin af Tróju og fundurinn og farið yfir helstu fornmynjar sem fundust á þeirri leit. Daglegu lífi í Grikklandi til forna er líst og mikið af myndum er í bókinni, sýndar myndir af dýrgripunum sem fundust t.d. gullgrímu Agamemnons og fleirum.
Farið er yfir ævi Agamemnons frá barnæsku þar til hann varð konungur og síðan er stríðnu við Tróju gert skil. Heimför Ódyseifs er sér kafli í bókinni og lengi vel var það draumur minn að læra forngrísku og lesa Ódyseifskviðu á frummálinu :) Hver veit nema maður láti verða að því einhvern daginn. Hmm
Þið getið rétt svo ímyndað ykkur hvað ég varð kát þegar ég heyrði af myndinni Troy. Og þó svo að hún hafi nú alls ekki verið sögulega rétt þá var það ágætis mynd, allavega nóg af myndarlegum karlmönnum :)

Ég heillaðist svo af þessari bók að síðan þá hefur Grikkland og allt því tengt verið draumalandið mitt og mín "pílagrímsför" verður sko farin til Aþenu þar sem ég ætla að standa á Akrapólíshæð við Meyjarhofið og hugsa um söguna. Fara svo til Knossos og Mýkenu og á fleiri staði. Get varla beðið.

Sólon hefur aðeins gluggað í þessa bók. Hann hafði bara nokkuð gaman af henni en hann heillaðist nú ekki alveg jafn mikið af henni og ég. Ég held að hann hafi verið of niðursokkinn í Harry Potter til að gefa sér tíma í hana :) En miðað við það að pabbi hans var líka mjög hrifinn af henni þá geri ég alveg ráð fyrir að hann muni leggjast í hana. Svona með tíð og tíma.